STEFNA FVA
GEGN EINELTI, ÁREITNI OG ÖÐRU OFBELDISTE-0001
Stefna FVA er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi í skólanum er ekki liðið. Komi upp grunur um háttsemi starfsmanns eða nemanda sem særir eða er meiðandi fyrir samstarfsfólk eða samnemendur er allra ráða leitað til leysa það hið fyrsta á faglegan og farsælan hátt. Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi eru skilgreind í verklagslýsingu. Með forvarnaráætlun er unnið að því að fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi.
Stefnan er á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Birtingarmyndir eineltis, áreitni og ofbeldis eru margvíslegar og eiga það sameiginlegt að þær geta falist í orðum, látbragði, óvelkominni snertingu eða verið rafrænar, til dæmis á samfélagsmiðlum eða í tölvupósti.
Þegar rætt er um einelti eða aðra ótilhlýðilega hegðun er það upplifun einstaklingsins sem ræður: Þolandi metur sjálfur hvaða framkomu hann umber og frá hverjum og segir frá ef honum er misboðið.
Einelti, áreitni eða ofbeldi verður ekki umborið enda lýsir það ójöfnum leik þar sem einn eða fleiri fara ítrekað yfir persónuleg mörk þolanda þannig að hann líður fyrir. Komi upp grunur um slíkt mál bregðast skólastjórnendur við eins fljótt og kostur er.
Öruggt náms- og starfsumhverfi
Til þess að stuðla að öruggu náms- og starfsumhverfi í skólanum er lögð áhersla á góð samskipti og þeim haldið á lofti í umræðum og með fræðslu um þýðingu einkunnarorða FVA: virðing, jafnrétti og fjölbreytileiki. Það er á ábyrgð allra, bæði nemenda og starfsfólks, að stuðla að jákvæðum samskiptum, samkennd og virðingu fyrir öðrum og að láta vita ef út af ber, þ.e. ef nemandi eða starfsmaður verður fyrir eða verður vitni að ótilhlýðilegri hegðun hjá samnemanda eða starfsfólki.
Markmið
Stefna þessi ásamt verklagslýsingum og leiðbeinandi verklagi í gátlista er sett fram til þess að skýrt sé hvernig brugðist er við aðstæðum þar sem nemandi eða starfsmaður verður var við eða telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi í skólanum af hendi samnemenda eða samstarfsfólks. Með forvarnaráætlun er unnið að því að fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi.
Skilgreiningar og upplýsingar
Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða t.d. að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir (Reglugerð nr. 1009/2015, 3. gr.). Einelti getur þrifist alls staðar og er ekki alltaf augljóst öðrum en þeim sem fyrir verður.
Afleiðingar eineltis: Einelti er alltaf alvarlegt mál. Afleiðingar geta bæði verið andlegar og líkamlegar (s.s. einbeitingarskortur, kvíði, ótti, höfðuverkur, magaverkur og fleira) og hafa mikil áhrif á þá sem verða fyrir. Þær geta einnig haft neikvæð áhrif á líðan annarra eða samstarf í hópnum.
Hvað er ekki einelti? Mikilvægt er að hafa í huga að skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna sem getur komið upp milli starfsmanna eða nemenda eða t.d. nemanda og kennara, telst ekki einelti, nema hann komi upp aftur og aftur. Gerist það þarf að leysa málið hið fyrsta svo það þróist ekki til þess að verða eineltismál.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Önnur ótilhlýðileg háttsemi; getur falist í óviðeigandi eða lítilsvirðandi framkomu; sem dæmi má nefna móðgun: Upplifun þess sem fyrir verður skiptir máli, einn getur upplifað það sem móðgun eða ótilhlýðilega háttsemi sem annar tekur ekki nærri sér.
Birtingarmyndir eineltis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni, ofbeldis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi geta verið margvíslegar, s.s.:
- Ósanngjörn eða hörð gagnrýni tengd vinnubrögðum í viðurvist annarra
- Endurteknar skammir
- Endurtekin stríðni
- Baktal og sögusagnir
- Viðkomandi er lítillækkaður eða útilokaður frá félagahópi
- Viðkomandi er hótað (t.d. á samfélagsmiðli)
- Einn eða fleiri skemmta sér á kostnað annars
- Líkamlegt (s.s. að slegið er til viðkomandi)
- Skemmdarverk (eigur skemmdar)
- Grafið undan trausti á faglegri hæfni eða frammistöðu
- Senda eða sýna kynferðislegrar eða klámfengnar myndir
- Kynferðislegt tal
- Óvelkomin snerting, s.s. káf, kossar, faðmlög
- Kynferðislegar athugasemdir um klæðaburð eða útlit
- Gláp
- Farið inn á persónulegt rými einstaklings
- Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks
- Niðurlæging til dæmis vegna aldurs eða kyns
- Lítillækkandi athugasemdir um kyn einstaklings og getu hans/hennar/þeirra.
- Almennt neikvætt viðhorf um ákveðið kyn á vinnustaðnum
- Hótun um að meiða
- Kynferðisleg áreitni með orðum og látbragði er líka ofbeldi
- Hunsun, að uppnefna fólk og/eða öskra á það
Meintur þolandi: Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinn áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi.
Meintur gerandi: Sá sem kvörtun beinist að um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega háttsemi.
Gildissvið
Stefnan nær til allra nemenda skólans og starfsmanna, fastráðinna sem tímabundið ráðinna, verktaka sem sinna verkefnum í skólanum sem og starfsmanna fyrirtækja/stofnana sem eiga í samskiptum við skólann.
Hlutverk stjórnenda og skyldur
Stjórnendur ganga á undan með góðu fordæmi, sýna starfsfólki virðingu og umburðarlyndi, stuðla að vellíðan í starfs- og námsumhverfinu. Þeim ber að taka strax á neikvæðu tali og taka öllum ábendingum/kvörtunum um ótilhlýðilega háttsemi alvarlega. Viðbrögð skulu vera fagleg og markviss og lausna leitað. Þeir vinna að því að tryggja gott starfsumhverfi og að samskipti séu í samræmi við stefnu skólans og gildi. Verklagslýsingar ásamt gátlistum eru leiðbeinandi um viðbrögð ef ábending eða kvörtun um einelti berst þeim.
Hlutverk og skyldur starfsfólks
Gildi skólans, jafnrétti, virðing og fjöbreytileiki, eru styðjandi og leiðbeinandi fyrir starfsfólk um hegðun og framkomu sem er ekki meiðandi fyrir aðra. Starfsfólk leggur sitt af mörkum til að efla jákvæðan starfsanda með góðum samskiptum, gagnkvæmri virðingu og umburðarlyndi gagnvart margbreytileika. Starfsfólk stuðlar að því að tekið sé á ótilhlýðilegri háttsemi og leitast við að koma í veg fyrir slíka hegðun. Telji starfsmaður að hann hafi orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum eða verður var við slíkt á vinnustaðnum þá skal tilkynnt um það til skólameistara. Starfsmaður getur verið ómeðvitaður um að hegðun sé óviðeigandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Mikilvægt er að starfsmaður sem fyrir slíku verður setji mörk og láti vita af því ef honum líkar ekki framkoman.
Framkvæmd
Í forvarnaráætlun FVA gegn einelti, áreitni og öðru ofbeldi er tíundað hvernig leitast er við að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Það er gert með reglubundinni fræðslu um stefnu skólans og minnt á viðbrögð stjórnenda í samræmi við verklagslýsingu (Nemendur / Starfsfólk) ef slík mál koma upp. Leggi starfsmaður/starfsmenn eða nemendur aðra í einelti grípa stjórnendur til aðgerða, t.d. með áminningu. Ef niðurstaða athugunar á meintu einelti, áreitni eða ofbeldi er að það hafi ekki átt sér sér stað er starfsumhverfið engu að síður athugað með það að leiðarljósi að ryðja úr vegi mögulegum aðstæðum sem geta ýtt undir að aftur komi upp áhöld um meint einelti, áreitni eða ofbeldi.
Stefnuna skal endurskoða og uppfæra eftir þörfum.
Akranesi 30. október 2021
Tilvísanir og tengd skjöl
Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
Verklagslýsing um viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi VER 003-Nemendur
Verklagslýsing um viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi VER-002-Starfsfólk