Brautskráning og skólaslit laugardaginn 19. maí

Nemendur verða brautskráðir og skólanum slitið laugardaginn 19. maí. Athöfnin, sem fram fer á sal skólans, hefst klukkan 14. Útskriftarnemar þurfa að mæta stundvíslega klukkan 13.

Sjúkrapróf 15. maí

Þriðjudaginn 15. maí verða sjúkrapróf haldin sem hér segir. Klukkan 9 í áföngunum ENS2026, FÉL1036, FRA1036, FRA3036,ÍSL3036, ÍSL4036, LÍF1836, LÍF2036, NÁT1036,SAG1036, SAG2036, SAG3036, SÁL2036, STÆ1026, STÆ1226, STÆ2036, STÆ2626,  STÆ5036, TÖL1036, ÞÝS1036, ÞÝS2036, ÞÝS3036´og ÖVM1836. Klukkan 13 í áföngunum EÐL3036, ÍSL2026, LAN1036, NÁT1136, STÆ3036 og STÆ6036.

Nýr skólavefur

Nýr skólavefur var opnaður í dag. Hann var hannaður og smíðaður af Önnu Margréti Sveinsdóttur kerfisstjóra skólans.

Svíþjóðarferð vegna Comeniusarverkefnisins Planting our future

Fjölbrautaskóli Vesturlands tekur þátt í Comeniusarverkefni sem nefnist Planting our Future og fjallar um umhverfismál, sjálfbærni og umgengni manna við náttúruna. Þátttakendur í verkefninu eru tíu skólar í jafnmörgum löndum.
Vikuna 15. til 21. apríl hittust fulltrúar skólanna í Hallsberg í Svíþjóð. Héðan fóru Halla Ingibjörg Guðmundsdóttir kennari og nemendurnir Ingileif Egilsdóttir og Viktoría Rós Viktorsdóttir. Ýmir verkefni voru unnin í Svíþjóðarferðinni og meðal annars farið í útilegu í sænskum skógi þar sem myndin hér að neðan var tekin.

Dimmission

Í morgun héldu útskriftarnemar kveðjuhóf sitt, sem samkvæmt gamalli hefð kallast dimission. Þeir mættu í skólann klukkan átta klæddir eins og steinaldarmennirnir Fred og Vilma Flintstone og buðu starfsmönnum til morgunverðar. Í þriðju kennslustund höfðu þeir svo skemmtun á sal fyrir alla skólafélaga sína.

Vísindadagar unga fólksins

Undanfarin vor hafa nemendur framhaldsskóla átt þess kost að koma að Hvanneyri og dvelja þar í nokkra daga til að kynnast ýmsum greinum náttúruvísinda og komast í snertingu við vísindalegt starf. Þessir dagar hafa gengið undir heitinu Vísindadagar unga fólksins.
   Nú í vor býðst nemendum sem hefja annað eða þriðja ár í framhaldsskóla haustið 2012 að sækja um að fá að vera með. Alls komast 20 nemendur að og þeir verða á Hvanneyri í Borgarfirði dagana 21. til 24. maí.
   Nemendur af náttúrufræðibrautum ganga fyrir og þátttökugjald er 5000 krónur. Þátttakendur þurfa að póstleggja umsóknir í síðasta lagi mánudaginn 7. maí. Umsækjendur fá svar mánudaginn 14. maí. Nánir upplýsingar eru á vef Landbúnaðarháskólans.

Skólahlaup á síðasta degi vetrar

Klukkan rétt rúmlega 11 í dag ræsti Anna Bjarnadóttir íþróttakennari nemendur og starfsmenn af stað í skólahlaup. Leiðin var þrír kílómetrar. Fyrstir í mark voru Auðunn Sigurðsson sem hljóp á 12 mínútum og 40 sekúndum og Arnar Steinn Ólafsson sem hljóp á 12 mínútum og 41 sekúndu. Myndina hér að neðan tók Steingrímur Bnediktsson í þann mund sem hópurinn fór af stað.
   Hugmyndin um skólahlaup kviknaði í tengslum við innleiðingu verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli þar sem hreyfing er einn fjögurra áhersluþátta. Stefnt er á að skólahlaup á síðasta vetrardag verði héðan í frá árviss viðburður.

 

Skólahlaup FVA á morgun, miðvikudag

Á morgun, miðvikudag 18. apríl, verður skólahlaup Fjölbrautaskóla Vesturlands haldið í fyrsta sinn. Skokkað verður af stað frá skólanum klukkan 11. Leiðin er 3 kílómetrar. Allir nemendur og starfsmenn eru hvattir til að mæta klæddir og skóaðir til útiveru og vera með. Þeim sem vilja fremur ganga en hlaupa er það að sjálfsögðu heimilt.
   Vegna hlaupsins verður umsjónartíminn örstuttur þar sem aðeins verður merkt við. Hádegisverður í mötuneyti verður framreiddur frá klukkan 11:40 og fyrsti tími eftir hádegi skerðist um korter svo þeir sem vilja hafi tíma til að skipta um föt. Það verður því ekki hringt inn klukkan 12.25 eins og venjulegur heldur klukkan 12:40.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00