Uppbrotsvika á afreksíþróttasviði

Vikan sem nú er að líða undir lok var óhefðbundin hjá nemendum á Afreksíþróttasviði FVA. Á mánudag var boðið upp á flot í Bjarnalaug þar sem flotið er um í vatni með þar til gerðum búnað og áhersla lögð á slökun og núvitund. Á þriðjudag fóru nemendur í blak og á fimmtudag var fyrirlestur frá Þórði Guðjónssyni.

Þórður er fyrrverandi nemandi í FVA. Hann lék með ÍA í knattspyrnu áður en hann gerðist atvinnumaður og hann á jafnframt að baki 58 leiki með íslenska A - landsliðinu. Þórður hóf fyrirlesturinn á því að fara yfir feril sinn sem knattspyrnumanns og hvernig draumur hans frá 5 ára aldri rættist þegar hann náði þeim áfanga að verða atvinnumaður í íþróttinni. Hann hafði dreymt um að verða atvinnumaður með Köln í Þýskalandi eftir að hafa fylgst með ÍA keppa við Köln í Evrópukepnninni árið 1980. Sá draumur rættist því sem næst þegar hann spilaði sinn fyrsta leik sem atvinnumaður með Bochum gegn Köln í Köln í leik sem Bocum vann 2-1 og skoraði Þórður annað markanna.

Þórður ræddi við nemendurna um hvað þarf til að skara fram úr og hvað þau geta gert til að auka líkurnar á því að þau verði atvinnumenn í sinni íþrótt. Hann tók dæmi um fjölda íslendinga í ýmsum íþróttagreinum sem hafa náð góðum árangri á heimsmælikvarða og hvað þau hafa þurft að leggja á sig til þess.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00