fbpx

Móttökuáætlanir

Skólanámskrá FVA

Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku skulu framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin á að taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veitt er.

Móttökuáætlun fyrir nemendur með námsörðugleika

Skólinn leitast við að veita öllum nemendum sínum kennslu við hæfi og þann stuðning sem þeir þurfa á að halda. Hann leggur jafnframt áherslu á að hver nemandi beri ábyrgð á námi sínu. Nemendur sem glíma við námsörðugleika geta þurft að verja lengri tíma til heimanáms en aðrir. Stuðningur skólans er skipulagður fyrir þá sem eru sjálfir tilbúnir til að leggja sig fram.

Skólinn kemur því aðeins til móts við nemendur með dyslexíu eða aðra sértæka námserfiðleika að þeir, eða forráðamenn þeirra, láti náms- og starfsráðgjafa vita af örðugleikum sínum.

Náms- og starfsráðgjafar leiðbeina nemendum, m.a. um umsóknir sérúrræða og þá stuðningsþjónustu sem er í boðin innan skólans.

Móttökuáætlun fyrir nemendur sem innritast á starfsbraut

Á hverri vorönn býður starfsbraut FVA öllum grunnskólanemendum með þroskahömlun og skyldar raskanir í tíundu bekkjum á Akranesi og nágrannasveitarfélögum að koma í námskynningu. Forráðamönnum nemendanna gefst þá tækifæri til að kynna sér starf brautarinnar og ræða við kennara. Í kjölfar þessa kynningardags er gert ráð fyrir að grunnskólanemendur komi í aðlögun á starfsbraut skólans ásamt fylgdarmanni í nokkrar kennslustundir á önninni, allt eftir þörfum nemandans. Fyrir upphaf skólagöngu hittast kennari starfsbrautar og kennari viðkomandi grunnskólanema og fara yfir stöðu hans, ásamt því að deildarstjóri starfsbrautar fundar með nemanda og forráðamönnum hans.