Öryggisáætlun
Skólanámskrá FVA
Við skólann starfar öryggisnefnd, sem er skipuð tveim öryggisvörðum tilnefndum af skólameistara, og tveim öryggistrúnaðarmönnum sem kjörnir eru af starfsmönnum. Öryggisnefnd fylgist með vinnuumhverfi. Hún tekur til umfjöllunar slys, óhöpp og atvinnusjúkdómstilfelli með það fyrir augum að finna orsakir og koma með tillögur um úrbætur svo koma megi í veg fyrir endurtekningu.
Þeir sem hafa vitneskju um slys, slysagildrur, heilsuspillandi aðstæður eða annað sem ógnar heilsu og velferð fólks í skólanum eiga að láta öryggisnefnd vita.
Skólinn leggur sig fram um að tryggja öryggi nemenda sinna og starfsmanna og leggur áherslu á að þeir fylgi öryggisreglum. Í áföngum sem kenndir eru á verkstæðum eða annars staðar þar sem slysahætta er fá nemendur skriflegar reglur sem þeim er skylt að fylgja. Þeir kvitta fyrir að þeim sé kunnugt um reglurnar og ef þeir eru yngri en 18 ára fá forráðamenn sent afrit af reglunum með staðfestingu nemanda á að hann viti hverjar þær eru. Brot á öryggisreglum geta varðað brottvísun úr áfanga.
Verði slys í kennslustund skal kennari skrá hvað gerðist. Skráningin skal borin undir þann sem fyrir slysinu varð. Sé ágreiningur um málsatvik skal skrá hvað menn eru ósammála um, annars staðfesta bæði kennari og sá sem varð fyrir slysi að atvikalýsing sé rétt.