Námsframvinda
Skólanámskrá FVA
Almennt er miðað við að nemendur í bóklegu námi ljúki 25-35 einingum á önn auk íþrótta. Á iðnbrautum er einingafjöldi í sumum tilvikum meiri. Miðað er við að nám til stúdentsprófs taki að hámarki 9 annir og að námslok í iðnnámi taki ekki lengri tíma en sem nemur þremur önnum umfram áætlaðan annafjölda skv. áætlun námsbrautar.
Hver nemandi þarf að skipuleggja nám sitt eftir brautalýsingu og stunda skóla samkvæmt stundaskrá. Ákvæði sem hér fara á eftir telja upp nánari reglur og ýmis möguleg frávik.
Á iðnbrautum gilda einnig þau viðmið að nemandi verður að ljúka öllum áföngum grunndeildar áður en hann getur haldið áfram námi á viðkomandi braut.
Helstu námskröfur
- Miðað er við að nemandi ljúki a.m.k. 20 einingum á önn. Standist nemandi ekki þessi framvinduviðmið getur hann ekki gert ráð fyrir að fá fleiri en 20 einingar í stundatöflu næstu önn á eftir. Hafi nemandi ekki lokið a.m.k. 80 einingum eftir 4 annir í námi á hann ekki rétt á áframhaldandi skólavist.
- Nemanda er heimilt að sitja þrívegis í sama áfanga. Falli nemandi í sama skylduáfanga í þriðja sinn eða hafi hætt í áfanga eftir 3 vikur af önn, að undangengnu samráði við náms- og starfsráðgjafa, þarf hann að sækja um setu í áfanga í fjórða sinn. Við fall í þriðja sinn er framhald ákveðið í samráði við áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa.
- Um námsframvindu á iðnbrautum gildar sérreglur þar sem fall í einstökum áföngum býr til rof í samfellu námsins. Hvert tilvik um endurtekt áfanga í iðnnámi er því metið af áfangastjóra og deildarstjóra m.t.t hópastærða og öryggissjónarmiða.
- Ef fall á lokaprófi í einum áfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast á hann rétt á að endurtaka próf í þeim áfanga í lok sömu annar. Falli nemandi í símatsáfanga á hann rétt á að taka lokapróf úr efni áfangans. Slíkt endurtektarpróf gildir 100% til lokaeinkunnar. Greiða þarf fyrir endurtektarpróf skv. gjaldskrá skólans.
- Til að standast áfanga þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í tveim áföngum ef um lokaáfanga eða staka áfanga er að ræða. Þeir áfangar gefa ekki einingar.
- Nemendur í dreifnámi geta sótt um að endurtaka lokapróf í sérgreinum brauta. Greiða þarf fyrir endurtektarpróf skv. gjaldskrá skólans.
Skólaráð (sjá kafla 5.3) getur veitt undanþágur frá ofangreindum ákvæðum.
Dreifnám
Um kennslu í dreifnámi við gilda eftirfarandi viðmið:
Þjónusta skólans við nemendur:
- Nemandi í dreifnámi skal fá nákvæma námsáætlun í upphafi annar, þar sem meðal annars er tilgreint hvenær verkefnum skal skilað og hvaða vægi þau hafa.
- Að jafnaði skal við það miðað að kennari og nemandi hafi a.m.k. vikuleg samskipti.
- Sé hluti áfanga verklegur eða námsefni þess eðlis að hrein fjarkennsla henti ekki til að kenna það allt býður skólinn upp á staðbundnar lotur.
Kröfur sem skólinn gerir til nemenda í dreifnámi:
- Til að ljúka áfanga í dreifnámi þarf nemandi bæði að ná lokaeinkunninni 5 og fá að minnsta kosti 5 á lokaprófi sem gildir a.m.k. 40% til lokaeinkunnar.
- Nemendum í dreifnámi ber að tengjast námskerfi skólans svo oft sem kennarar þeirra mæla fyrir um og ekki sjaldnar en einu sinni í viku.
Heimilt er að innheimta gjald af nemendum sem stunda dreifnám umfram venjulegt innritunargjald skv. gjaldskrá skólans.
Óski nemandi í dreifnámi eftir því að taka lokapróf annars staðar en á Akranesi getur hann sótt um það hjá áfangastjóra a.m.k. tveimur vikum áður en lokapróf hefjast.
Undanfarabrot
Þegar nemandi þarf vegna útskriftar að taka áfanga sem hann hefur ekki lokið undanfara fyrir getur hann sótt um undanþágu á eyðublaði á vef skólans.
Árekstrarheimild
Árekstrarheimild er veitt nemanda í reglulegu námi þegar áfangar, sem hann þarf að stunda á sömu önn, rekast á í töflu hans og að fyrir árekstri séu gildar ástæður, svo sem að annars tefjist útskrift.
Nemandi verður að ráðgast við kennara viðkomandi áfanga ekki síðar en viku eftir að árekstrarheimildin hefur verið samþykkt, annars fellur hún úr gildi.
Nemandi skal sækja kennslustundir í árekstri samkvæmt samkomulagi við kennara þannig að hann geti fylgst með og tekið þátt í verkefnum. Ef nauðsynlegt er að breyta út af fyrirfram ákveðinni mætingareglu þarf nemandi að semja um það við viðkomandi kennara.
Undanþágur
Nemendur með þroskahömlun og skyldar raskanir og nemendur með námsörðugleika geta sótt um undanþágu til skólameistara frá einstökum námsáföngum enda sé fullreynt að mati skóla að nemandinn geti náð tökum á námsefninu vegna skilgreindra annmarka Nemendur skulu þó taka aðra áfanga í stað þeirra sem þeir fá undanþágu frá.
Áður en undanþága er veitt skal skólameistari gera nemendum grein fyrir því að undanþágan gildi aðeins vegna útskriftar af einni tiltekinni braut og geti skert möguleika þeirra til áframhaldandi náms.
Á prófskírteini nemenda skal gera sérstaka grein fyrir undanþágum sem veittar eru samkvæmt framansögðu.
Til að nemandi teljist hafa reynt að fullu við ákveðinn áfanga er að jafnaði miðað við að hann hafi setið áfangann a.m.k. þrisvar og að mæting hafi verið viðunandi skv. mætingarreglum skólans.
Annað móðurmál en íslenska
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá kennslu í íslensku sem öðru máli. Nemendur sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri geta sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál.
Endurtaka áfanga
Ef nemandi endurtekur áfanga sem hann hefur þegar staðist gildir seinni einkunnin sem hann fær.