Námsmat
Skólanámskrá FVA
Námsmat miðar að því að afla vitneskju um árangur nemenda og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum. Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Námsmat á að veita nemendum, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi sem má hafa að leiðarljósi við skipulagningu og uppbyggingu náms. Til að geta gegnt þessu margþætta hlutverki þarf námsmat að uppfylla þau skilyrði að vera réttmætt, raunhæft og áreiðanlegt.
Stefnt skal að því að hafa námsmat í öllum áföngum fjölbreytt og lýðræðislegt þar sem reynir á margþætta þekkingu, leikni og hæfni. Leitast skal við að beita fjölbreyttum matsaðferðum sem geta m.a. falið í sér mat á einstaklings- eða hópverkefnum, ritgerðum, skyndiprófum, tímaverkefnum, skýrslum, tilraunum, vinnubókum, gagnaprófum, lokaprófum, virkri þátttöku í tímum, mætingu o.fl.
Námsmat og einkunnir
Námsmat getur verið ólíkt eftir námsgreinum og áföngum en deildastjórar tryggja að samræmis sé gætt í námsmati innan áfanga og að kennarar hafi samvinnu um yfirferð prófa þar sem því verður viðkomið. Ef nemendur hafa val um mismunandi námsmatsleiðir í áfanga skal það koma skýrt fram í námsáætlun. Að jafnaði eru einkunnir gefnar í tölum í áföngum en á því eru þó einstaka undantekningar og er þá notað Staðið/Fall í stað tölugildis. Einkunnagjöf skal fylgja umsögn til útskýringar, þar sem það á við, til dæmis í mati á ritgerðum. Námsmati skal að jafnaði dreift yfir önnina en lokapróf eru haldin á námsmatsdögum í lok annar. Skólinn setur reglur um framkvæmd prófa og er hún á ábyrgð áfangastjóra.
Eftir að námsmatsdögum er lokið eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara og fá útskýringar á námsmatinu ef um símatsáfanga er að ræða. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt innan tveggja daga frá námsmatsviðtali. Ef nemandi telur einkunnagjöf kennara ósanngjarna á hann rétt á að vísa málinu til skólameistara innan fimm daga frá námsmatsviðtali. Skólameistari sér til þess, að höfðu samráði við deildarstjóra, að hlutlaus prófdómari meti úrlausn nemandans og gildir úrskurður prófdómara.
Sé mæting hluti af lokaeinkunn áfanga, skal miða við hlutfallsútreikning (%) í dálkinum „til mætingareinkunnar“ í Innu. Til grundvallar skal hafa einkunnaskala mætingaeinkunnar sem er í skólanámskrá.
Lokaeinkunn er gefin í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 0 er ekki til. Heimilt er að nota annars konar einkunnir fyrir verkefni, t.d. umsagnir eða bókstafi. Námsmatsþættir til útreiknings lokaeinkunnar eru skráðir með tveimur aukastöfum.
Til að standast áfanga má einkunn ekki vera lægri en 5, þ.e. að nemandi þarf að ná a.m.k. 45% námsmarkmiða (námundað aðeins einu sinni).
Falli nemandi á lokaprófi sem vegur a.m.k. 40%, geta aðrir námsmatsþættir ekki orðið til hækkunar á lokaeinkunn upp fyrir 4.
Námsáætlanir
Í námsáætlun áfanga skal koma skýrt fram;
- hvaða námsþættir eru metnir,
- hvenær þeir eru metnir,
- hvert er vægi þeirra í lokaeinkunn,
- mætingaskylda (t.d. í verklegum æfingum),
- hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að ljúka áfanga á fullnægjandi hátt.
Námsáætlanir eru aðgengilegar í INNU.