fbpx

 Prófreglur

Skólanámskrá FVA

  1. Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs og athuga á auglýsingatöflu skólans hverju sinni hvar þeim er ætlaður staður í prófinu. Komi nemandi of seint til prófs skerðist próftími nemandans sem því nemur.
  2. Við skrifleg próf má aðeins nota þau gögn sem tilgreind eru í prófverkefnum. Önnur gögn mega ekki vera uppi á borðum og ekki heldur pennaveski, töskur eða aðrar hirslur. Farsíma, tölvur og snjallúr má ekki hafa með í próf. Slík tæki afhendist yfirsetukennara áður en próf hefst. Vasareiknir þarf samþykki yfirsetukennara.
  3. Persónuskilríki ber að hafa tiltæk á borðinu og munu yfirsetukennarar kanna þau eftir þörfum hverju sinni.
  4. Þegar próftíma lýkur skulu nemendur skilja prófverkefni eftir á prófborðum og yfirgefa prófstofur. Heimilt er að yfirgefa prófstofu við úthringingu eftir að klukkustund er liðin af próftíma, aftur að hálfri klukkustund liðinni og aftur þegar hámarkspróftími, sem er tvær klukkustundir, er liðinn.
  5. Nemandi sem verður fyrir slysi eða veikist á próftímabili hefur rétt til þess að taka sjúkrapróf enda skili viðkomandi vottorð frá skólahjúkrunarfræðingi eða lækni því til staðfestingar. Nemendur undir 18 ára aldri geta skilað staðfestingu á veikindum frá forráðamönnum. Nemendum ber að tilkynna veikindi sín til skrifstofu skólans áður en próf hefst og skila þangað vottorði. Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli yfirsetukennara sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Vottorð skilist til skrifstofu skólans fyrir sjúkrapróf.
  6. Öll sjúkrapróf fara fram á sjúkraprófsdegi sem tilgreindur er í skóladagatali. Hafi nemandi tilkynnt veikindi á prófdegi er viðkomandi sjálfkrafa skráður í sjúkrapróf. Leggja þarf fram fullgilt vottorð til að fá rétt til töku sjúkraprófs (sjá prófreglu nr. 5).

Verði nemandi uppvís að broti á prófreglum er prófstjóri kallaður til sem ákvarðar hvort nemandanum skuli vísað frá prófi. Almennt eiga prófreglur við um bæði lokapróf og hlutapróf.

Það sem segir um notkun óheimilla hjálpargagna í prófreglu 2 gildir eftir því sem við á um annað námsmat en skrifleg lokapróf. Ef nemandi eignar sér til dæmis verkefni sem annar hefur unnið eða reynir að hafa rangt við þegar úrlausn eða verkefni er skilað þá jafngildir það broti á prófreglu 2.

Skólameistari ákvarðar eftir alvöru brots hvort kallað sé saman skólaráð til ákvörðunar um viðurlög við brotum á prófreglum.

Forfallapróf

Nemendur sem ekki geta tekið hlutapróf á settum tíma vegna veikinda eða annarra löglegra forfalla geta tekið þau á fyrir fram ákveðnum tímum yfir önnina skv. skóladagatali og fyrirmælum kennara í námsáætlun. Umsjón með slíkum prófum er á ábyrgð áfangastjóra og námsgreinakennarar verða til staðar í prófunum eftir því sem við verður komið.

Aukapróf

Nemendur geta sótt um til áfangastjóra að fá að taka lokapróf í stökum áföngum á öðrum degi og/eða tíma en þau eru skráð skv. stundatöflu. Umsókn skal skila a.m.k. 14 dögum fyrir áætlaðan prófdag og í umsókn skal ástæða tilgreind. Greiða skal fyrir slík próf skv. gjaldskrá. Námsgreinakennari verður til staðar fyrir nemendur í aukaprófi eftir því sem því verður við komið.

Frávik frá hefðbundnu námsmati

Nemendur með þroskahömlun og skyldar raskanir, langveikir nemendur, nemendur með lesröskun (lestrar- eða skriftarörðugleika) eða aðra staðfesta örðugleika í námi geta sótt um sérúrræði frá hefðbundnu námsmati í samráði við náms- og starfsráðgjafa.