Starfsfólk, stjórn,
NEFNDIR OG RÁÐ
Skólanámskrá FVA
Upplýsingar um starfslið skólans, stjórn hans, nefndir og ráð eru á vef skólans.
Mennta- og barnamálaráðuneyti fer með yfirstjórn FVA. Við yfirstjórn skólans starfa skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri:
- Skólameistari sem hefur yfirumsjón með starfsemi skólans.
- Aðstoðarskólameistari sem er staðgengill skólameistara og honum til aðstoðar við daglega stjórn skólans og rekstur.
- Áfangastjóri sem annast m.a. námsferilsskráningu, töflugerð, eftirlit með framkvæmd námsvals og úrvinnslu einkunna.
- Fjármálastjóri sér um fjármál skólans og bókhald og gæða- og verkefnastjóri mannauðsmála hefur umsjón með gæðastýringu og ýmsum mannauðsmálum.
Skipurit og upplýsingar um starfsfólk skólans má sjá á vef skólans.
Auk yfirstjórnar eru kennarar ráðnir til að annast deildarstjórn, sem felur m.a. í sér umsjón með faglegu samstarfi kennara sem kenna greinar í sama greinaflokki.
Foreldraráð
Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Forráðamenn allra nemenda við skólann eiga rétt á aðild að því. Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.
Skólanefnd
Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn, næst árið 2022. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennurum, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði skólans. Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt og er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
Hlutverk skólanefndar er meðal annars að marka áherslur í skólastarfinu og vera skólameistara til ráðgjafar í margvíslegum málum. Skólanefnd fundar eftir þörfum, að jafnaði tvisvar á önn á starfstíma skólans. Fundagerðir skólanefndar er að finna á vef skólans.
Skólaráð
Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans er skipað aðstoðarskólameistara, tveimur fulltrúum kennara sem kosnir eru á kennarafundi og tveimur nemendum sem stjórn NFFA velur og er skipað í ráðið til tveggja ára. Skólaráð er skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólaráð fundar á starfstíma skólans eftir því sem tilefni gefast.
Kennarafundur
Kennarafundur er skv. skóladagatali einu sinni í mánuði. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stingur upp á fundarstjóra og ritara. Fundargerð kennarafundar skal kynnt skólanefnd. Fjallað er um starfsemi skólans og stefnumörkun í, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, tilhögun prófa og námsmat.
Skólafundur
Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi á allt starfsfólk skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni skólans. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans.
Fulltrúaráð
Fulltrúaráð skal vera skólanefnd til ráðuneytis um þjónustu skólans á Vesturlandi og vera tengiliður á milli skólanefndar og sveitarfélaga sem eiga aðild að skólanum. Fulltrúaráð FVA skal skipað 12 fulltrúum og 12 til vara. Kjörtímabil fulltrúa sveitarfélaga í fulltrúaráði er fjögur ár og fylgir kjörtímabili sveitarstjórna.
Ýmis teymi
Auk nefnda og verkefnastjóra sem eru skipuð tímabundið vegna einstakra verkefna starfa að jafnaði við skólann:
- Áfallateymi (sjá um áfallaáætlun í kafla 1.2)
- Forvarnarfulltrúi
- Félagslífsfulltrúi
- Foreldraráð
- Gæðaráð
- Jafnréttisfulltrúi
- Starfshópur um heilsueflingu
- Verkefnastjóri afreksíþróttasviðs
- Verkefnastjóri umhverfismála
- Öryggisnefnd (sjá um öryggisáætlun í kafla 1.2)