fbpx

1.5 Innra mat

Skólanámskrá FVA

Viðfangsefni innra mats FVA er eftirfarandi: Kennsla og námsframboð, lykilárangur, stjórnun og skipulag, samskipti og líðan, húsnæði og aðbúnaður.

Innra matið fer fram með ýmsum hætti og byggir einkum á eftirfarandi:

  • viðhorfskönnunum
  • kennslukönnunum
  • rýni í töluleg gögn
  • viðtölum
  • rýnihópum

Reglulega eru gerðar kennslukannanir þar sem nemendur meta kennslu og námsefni í einstökum áföngum. Skólinn tekur árlega þátt í könnuninni „Stofnun ársins“, viðhorfskönnun sem lögð er fyrir alla starfsmenn og gefur mynd af starfsumhverfi stofnunarinnar, starfsánægju o.fl. Fleiri viðhorfskannanir, til að kanna viðhorf nemenda og/eða starfsmanna til ákveðinna þátta í starfseminni, eru lagðar fyrir eftir því sem þurfa þykir.

Skólinn tekur þátt í „Skólapúlsinum“ annað hvert ár, þar sem mæld er líðan og viðhorf nemenda. Á hverju ári er gerð greining á ýmsum gögnum úr nemendaupplýsingakerfi skólans – Innu, til að greina þætti eins og aðsókn að skólanum, gengi nemenda í námi, brottfall o.fl. Viðhorfskannanir núverandi og fyrrverandi nemenda auk forráðamanna hafa verið notaðar til að meta ákveðna þætti í skólastarfinu, svo og samantekt á niðurstöðum Rannsóknar og greiningar úr rannsókninni Ungt fólk meðal framhaldsskólanema.

Í matsáætlun skólans koma fram árlegar áherslur og áætlanir um innra mat. Allir þættir skólastarfsins eru metnir með skipulegum hætti og niðurstöður mats og skýrslur um vinnu við það eru birtar á vef skólans. Matið er unnið með hliðsjón af markmiðum skólans eins og þau eru skilgreind í lögum og skólanámskrá. Við það er miðað að hver þáttur skólastarfsins sé metinn a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili. Matsskýrslur FVA má sjá hér.