fbpx

 2.4 Mat á námi og reynslu

Skólanámskrá FVA

Mat á námi úr öðrum framhaldsskólum

Ef nemandi hefur stundað nám við annan framhaldsskóla, sem starfar samkvæmt aðalnámskrá mennta- og barnamálaráðuneytisins, getur viðkomandi fengið áfanga sem hann hefur lokið þar metna til eininga á sama hæfniþrepi í FVA.

Raunfærnimat staðfestir og metur raunverulega færni í skilgreindum verkum eða námsefni án tillits til þess hvernig eða hvar færninni var náð. Um framkvæmd raunfærnimats er nánar fjallað í reglugerð um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011.

Þess er getið á prófskírteini ef nám er metið úr öðrum skólum.

Mat á námskeiðum, óformlegu námi og starfsreynslu

1. Nemandi sem náð hefur 23 ára aldri getur fengið reynslu sem hann hefur aflað sér eftir 18 ára aldur metna til eininga. Slíkar einingar geta bæði komið í stað kjarnaáfanga í íþróttum og lífsleikni og í staðinn fyrir frjálst val á námsbraut.
2. Nemendur sem náð hafa 23 ára aldri, hafa náð góðum árangri í sérgreinum á starfstengdri námsbraut og vilja flýta námslokum, eiga þess kost að sækja um til skólameistara að reynsla eða óform
legt nám komi að hluta í stað annarra almennra námsgreina, ásamt lífsleikni og íþróttum. Slíkt nám gildir vegna námsloka á þeirri braut sem nemandi er skráður á.
3. Nemendur sem ekki falla undir liði 1 og 2 hér að ofan en hafa aflað sér kunnáttu, færni eða þekkingar með störfum, á námskeiðum eða með þátttöku í listum og félagslífi, geta sótt um að fá þá menntun metna til eininga. Að jafnaði er við það miðað að slíkt nám sé þá aðeins metið að það flýti fyrir útskrift af námsbrautinni sem nemandi er skráður á.
4. Almennt er miðað við að þátttaka í atvinnulífi er ekki metin sem ákveðnir áfangar á brautum en nám og námskeið sem ekki eru í framhalds- eða háskólum geta verið metin sem áfangar eftir innihaldi og tímalengd.

Mat á námi við tónlistarskóla

Nemendur sem stundað hafa nám eftir grunnpróf í tónlistarskóla geta sótt um að fá það metið sem hluta af frjálsu vali; einingum á lista- og nýsköpunarsviði Opinnar stúdentsbrautar; einingum í skapandi greinum á Félagsvísindabraut; Náttúruvísindabraut og Opinni stúdentsbraut í samráði við viðkomandi tónlistarskóla.

Reglur um mat á stökum áföngum

Áfangastjóri getur að höfðu samráði við deildarstjóra viðkomandi fags sett reglur um mat á stökum áföngum, t.d. hvað varðar tímalengd síðan þeim var lokið.

Mat á þjálfun hjá íþróttafélagi

Nemendur á fyrsta skólaári geta fengið íþróttaiðkun hjá íþróttafélagi metna í stað verklegs hluta íþróttaáfanga (1 eining) en sitja bóklega tíma. Umsókn um slíkt mat berist íþróttakennara og staðfestist af íþróttaþjálfara beint til íþróttakennara.

Nemandi sem æfir að jafnaði 4 sinnum í viku eða oftar hjá íþróttafélagi getur í upphafi annar sótt um að íþróttaiðkun komi í stað skólaíþrótta. Sé umsóknin samþykkt skilar nemandi staðfestingu frá þjálfara í lok annar þar sem fram kemur að nemandinn hafi stundað æfingar á viðkomandi önn.

Nemendur geta fengið eina einingu á önn metna vegna íþróttaiðkunar eftir fyrsta skólárið.

Mat á þátttöku í félagsstörfum

Skólameistari ákveður í lok hverrar annar, að fengnum tillögum frá stjórn nemendafélags NFFA, hvaða nemendur geta fengið einingar fyrir störf að félagslífi á vegum nemendafélagsins.

Að jafnaði er við það miðað að þeir sem leggja af mörkum verulega vinnu fyrir nemendafélagið geti fengið á bilinu 1 til 5 einingar á skólaári. Til að fá metnar einingar fyrir störf að félagslífi þurfa nemendur að uppfylla skilyrði um lágmarksframvindu í námi, 20 einingar á önn.