3.2 Samskipti við aðra
skóla, við aðila á vinnumarkaði og nærsamfélag
Skólanámskrá FVA
Upplýsingar sem skólinn veitir skulu vera réttar, áreiðanlegar og gefa rétta mynd. Skýrslur og upplýsingar um starfsemi skólans skulu vera aðgengilegar öllum, til að mynda á vef. Starfsfólk og nemendur skulu hafa í huga að þeir eru fulltrúar skólans í samskiptum við aðila utan hans, t.d. í tengslum við vettvangsheimsóknir og vettvangsnám. Leggja skal áherslu á að hafa hagsmuni skólans, nemenda og starfsfólks að leiðarljósi.
Starfsfólk og nemendur FVA eru meðvitaðir um skyldur sínar og mikilvægi virkrar samfélagslegrar þátttöku í nærsamfélagi.
FVA hefur samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, m.a. um námskrá og þróun námsgreina. Stjórnendur þessara þriggja skóla funda saman nokkrum sinnum á hverju skólaári. Sameiginlegir starfsmannafundir eru haldnir við og við.
FVA var einn af 34 stofnaðilum að Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi þegar hún varð til í febrúar 1999. Alla tíð síðan hefur skólinn átt fulltrúa í stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar og haft við hana margháttað samstarf. Skólinn sér um kennslu í Stóriðjuskóla Norðuráls sem er samstarfsverkefni Símenntunarmiðstöðvarinnar, Norðuráls og FVA.
FVA er í virku samstarfi við aðra framhaldsskóla og grunnskóla í nærumhverfi sínu, ásamt því að vera í virku samstarfi við aðra iðn- og verknámsskóla á landsvísu.
Sveitarfélög á Vesturlandi
Sumarið 1977 var gerður samningur milli Akraneskaupstaðar og menntamálaráðuneytisins um stofnun framhaldsskóla á Akranesi. Skólinn hlaut nafnið Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Tíu árum síðar breyttist skólinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands með samningi 32 sveitarfélaga á Vesturlandi um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Síðan þá hafa nokkur sveitarfélög á Snæfellsnesi sagt sig frá samkomulaginu og öðrum fækkað vegna sameiningar og nú eiga sex sveitarfélög formlega aðild að samningi um Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þau eru: Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Hvalfjarðarsveit. Samráðsvettvangur skólans og sveitarfélaganna sex kallast fulltrúaráð sem ráðuneytið skipar í, næst fyrir haustið 2022.
Aðilar á vinnumarkaði
Auk samstarfs við sveitarfélög á skólinn samvinnu við fjölda aðila á vinnumarkaði, einkum í greinum sem tengjast starfsnámsbrautum skólans.
Alþjóðlegt samstarf
Verkefnum sem tengjast alþjóðlegu samstarfi á vegum FVA má skipta í eftirfarandi:
- Nemendaskiptaverkefni, móttaka.
- Undirbúningsheimsóknir kennara vegna nemendaskiptaverkefna.
- Áfangar með borgarferð.
- Heimsóknir erlendra nema og kennara.
- Endurmenntunarnámskeið og skólaheimsóknir kennara.
FVA hefur haldið úti verkefnum þar sem nemendum skólans býðst að fara utan. Ýmist er um að ræða verkefni þar sem samstarf er haft við skóla erlendis um nemendaskipti eða áfanga þar sem hluti náms er að skoða erlenda borg. Nemendur hafa sjálfir þurft að standa straum af kostnaði vegna slíkra borgarferða en nemendaskiptaverkefnin eru styrkt af Nordplus eða Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Árlega berast beiðnir um samstarf og heimsóknir erlendra nemenda og kennara. Alþjóðastefnu FVA er að finna á vef skólans.