fbpx

3.3 Upplýsingar um nemendur

Skólanámskrá FVA

Skráning og meðferð upplýsinga

Skólinn skráir námsferla nemenda, námsárangur, viðveru og fleiri upplýsingar sem varða skólagöngu þeirra með rafrænum hætti í gagnagrunn sem kennarar, náms- og starfsráðgjafar og skólastjórnendur hafa aðgang að.

Starfsmenn skólans sem hafa aðgang að rafrænum upplýsingum um nemendur skulu gæta þess að engir aðrir fái vitneskju um lykilorðið og láta skólastjórnendur vita tafarlaust ef þeir hafa grun um að gögn sem meðhöndla ber sem trúnaðarmál séu aðgengileg óviðkomandi.

Starfsfólk skólans sem aðgang hefur að gögnum um nemendur er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um nemanda án samþykkis þess sem í hlut á og forráðamanna ef um er að ræða nemanda yngri en 18 ára.

Aðgangur nemenda og forráðamanna þeirra að upplýsingum

Hver nemandi fær aðgang að rafrænum upplýsingum sem skráðar eru um hann sjálfan. Sé nemandi yngri en 18 ára hafa forráðamenn hans einnig aðgang að sömu upplýsingum. Forráðamenn geta enn fremur fengið upplýsingar um námsframvindu, skólasókn eða annað sem tengist barni þeirra sérstaklega með því að hafa samband við skólastjórnendur.

Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða hann persónulega.